29 Janúar 2007 12:00
Fimmtán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tíu voru stöðvaðir í Reykjavík, þrír í Kópavogi, einn í Hafnarfirði og einn á Álftanesi. Flestir þessara ökumanna voru teknir aðfaranótt sunnudags. Þetta voru fjórtán karlmenn og ein kona. Meirihluti karlanna er á þrítugsaldri en þrír eru undir tvítugu. Einn í þessum hópi er 18 ára en hann var stöðvaður í Breiðholti aðfaranótt laugardags. Þá hafði hann keyrt á kyrrstæðan bíl en þess má jafnframt geta að pilturinn var þegar sviptur ökuleyfi.
Fjörutíu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur en þriðjungur þeirra ók á yfir 100 km hraða. Þar á meðal var karlmaður á þrítugsaldri sem var stöðvaður á Hringbraut á móts við Vatnsmýrarveg aðfaranótt sunnudags en bíll hans mældist á 120 km hraða en leyfður hámarkshraði er 60. Síðdegis á sunnudag var karlmaður á svipuðum aldri tekinn á 70 km hraða í Lyngási í Garðabæ en leyfður hámarkshraði þar er 30.
Þrjátíu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina, flest minniháttar. Keyrt var á konu á miðjum aldri í Grafarvogi á laugardag en henni var ekið á slysadeild. Þá var ökumaður fluttur á slysadeild eftir tveggja bíla árekstur á Nýbýlavegi í gær. Fimm voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og skráningarnúmer voru klippt af þremur ökutækjum sem öll voru ótryggð.