11 Desember 2006 12:00
Margir þjófar virðast vera á kreiki í borginni þessa dagana en lögreglunni í Reykjavík bárust nokkuð af tilkynningum vegna þessara óprúttnu aðila um helgina. Brotist var inn í þrjá bíla á ýmsum stöðum í borginni en úr einum þeirra var stolið nokkrum lambalærum. Þá fóru fingralangir aðilar ránshendi á tveimur stöðum i austurbænum og tóku gervijólatré ófrjálsri hendi.
Verslunareigendur urðu líka fyrir barðinu á þjófum og því er full ástæða til að hvetja fólk til að vera á varðbergi enn og aftur. Í mörgum tilvikum eru hinir óprúttnu aðilar staðnir að verki en það vekur athygli hve ófyrirleitnir þjófarnir eru. Í því sambandi má nefna eitt þjófnaðarmál sem kom upp um helgina. Þá höfðu ungir piltar verið að máta föt í ónefndri verslun en á meðan því stóð var úlpunum þeirra stolið úr mátunarklefunum. Bensínþjófnaðir eru líka mjög tíðir en tilkynnt var um fjóra slíka um helgina.