23 Desember 2006 12:00
Um kl.01:09 í nótt, aðfaranótt Þorláksmessu, kom upp eldur í einbýlishúsi við Gilsbakka á Hvolsvelli. Einstæð móðir ásamt þremur ungum börnum náðu að komast út undir bert loft undan eldinum og þykkum reykjarmekki og sluppu án meiðsla. Talið er að eldurinn hafi komið upp í svefnherbergi og gekk slökkviliðsmönnum Brunavarna Rangárþings vel að ráða niðurlögum eldsins. Talsvert tjón varð á innanstokksmunum þá sérstaklega vegna reyks, sóts og vatns en mikill þykkur svartu reykur myndaðist við brunann en eldur logaði m.a. í gardínum og tvíbreiðu rúmi í svefnherbergi en reykkafarar náðu rekja sig um húsið í gegnum reykinn og að upptökum eldsins. Ljóst er að þarna mátti litlu muna að ekki færi illa því umrætt einbýlishús er timburhús. Heimilismeðlimir voru í svefni en móðirin vaknaði við reykskynjara og náði að vekja börn sín og koma þeim út í tæka tíð. Slökkviliðsmenn og reykkafarar Brunavarna Rangárþings brugðust skjótt við og komu þannig trúlega í veg fyrir stórbruna. Óljóst er um eldsupptök en þau er í svefnherbergi eins og áður segir en lögreglan á Hvolsvelli fer með rannsókn málsins.