28 Desember 2006 12:00
Þrettán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Flest voru þau minniháttar en hálfþrítugur karlmaður var fluttur á slysadeild eftir að hann missti stjórn bíl sínum og keyrði á ljósastaur í vesturbænum um kvöldmatarleytið. Hann fann til í hálsi og baki. Nokkru áður var ekið á konu á miðjum aldri í austurbænum. Hún kom sér sjálf á slysadeild en konan reyndist hafa slasað sig á fæti.
Þrír voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær og einn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Þá stöðvaði lögreglan för þriggja ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Fullorðinn karlmaður var sömuleiðis stöðvaður í umferðinni í gær en það var mat læknis að maðurinn væri ekki hæfur til að stjórna ökutæki.
Allmargir voru teknir fyrir hraðakstur en einum þeirra þurfti að veita eftirför. Sá nam loks staðar við eina af áfengisverslunum borgarinnar en ökumaðurinn bar því við að hann hefði þurft að ná þangað fyrir lokun. Við leit í bílnum fundust ætluð fíkniefni en ökumaðurinn reyndist jafnframt hafa verið sviptur ökuleyfi.