28 Desember 2006 12:00
Allmörg innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Tölvubúnaði var stolið úr tveimur heimahúsum og einu fyrirtæki en á einum staðnum hurfu líka peningar. Eldhústækjum var stolið úr nýbyggingu og þá fór þjófur inn á veitingastað í austurbænum og komst undan með eitthvað af peningum. Hljómflutningstækjum var stolið úr bíl og þá var brotist inn í tvær geymslur. Í annarri voru sumardekk tekin en í hinni fór þjófurinn á brott með kjötvörur úr frystikistum.
Þrjár matvöruverslanir í borginni urðu líka fyrir barðinu á þjófum í gær en hinir óprúttnu aðilar höfðu þó ekki sérlega mikið upp úr krafsinu. Einn bensínþjófur var líka tilkynntur til lögreglunnar í gær en vonir standa til að sá hinn sami finnist fljótlega.