8 Nóvember 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík var kölluð til vegna ósættis tveggja manna á miðjum aldri í ónefndu gistihúsi í borginni um kvöldmatarleytið í gær. Annar maðurinn hafði slegið hinn í andlitið svo að á honun sá. Gerandanum var vísað út en þá tók hann sig til og kastaði grjóti í gegnum rúðu á húsinu. Grjótkastarinn var handtekinn og færður í fangageymslu.
Skömmu síðar var lögreglan kölluð til á öðrum stað í borginni þar sem tveir menn deildu út af viðskiptum. Annar þeirra var með hund meðferðis sem hafði bitið hinn manninn í lærið en ekki lá ljóst fyrir hversu alvarleg meiðslin voru. Mönnunum bar ekki saman um atburðarásina.
Þá handsamaði lögreglan ungan mann sem lét ófriðlega í austurbænum um miðjan dag. Sá hafði m.a í hótunum við lögreglumennina. Í fórum hans fundust tveir hnífar sem voru haldlagðir.