15 Nóvember 2006 12:00
Töluverður erill var hjá lögreglunni í Reykjavík vegna tónleika í austurbænum í gærkvöld en þá sótti hópur ungmenna. Mikið bar á ölvun og þurfti að keyra suma til síns heima af þeim sökum. Eins var haft samband við foreldra og þeir látnir sækja börn sín en unglingarnir sem lögreglan hafði afskipti af voru mestmegnis á aldrinum 16-17 ára. Það skal tekið fram að öflug gæsla var á staðnum og dyraverðir gengu hart fram í því að krefja tónleikagesti um skilríki.
Vandræði vegna ölvaðra unglinga voru bæði á og við tónleikastaðinn sem og í næsta nágrenni hans. Nokkuð var um pústra og þá stöðvaði lögreglan för tveggja ökumanna á þessum slóðum en hvorugur þeirra hafði náð 17 ára aldri. Þá var tilkynnt um eitt umferðaróhapp við tónleikastaðinn og voru tveir handteknir í tengslum við málið. Það voru stúlkur á átjánda aldursári en þær voru báðar ölvaðar.