14 Mars 2020 14:00
Alla daga fær lögreglan viðbrögð frá fólki við þeim verkefnum sem hún sinnir. Þau eru auðvitað allskonar, stundum ekki prenthæf en langoftast bara jákvæð. Dæmi um það síðarnefnda er tölvupóstur sem lögreglustjóranum okkar barst í vikunni eftir að steypubíl var stolið í miðborginni og honum veitt eftirför. Sendandinn, sem gaf góðfúslega leyfi sitt fyrir birtingu póstsins, var einn margra sjónarvotta að eftirförinni.
> Sæl Sigríður,
>
> Ég starfa í turninum í Höfðatorgi og horfði á eftirförina í gær eftir Sæbrautinni.
>
> Það er ótrúlegt hversu fagmannlega þitt fólk stóð að þessu. Lögreglubílarnir virtust mynda nokkurskonar spíss utan um steypubílinn, þrátt fyrir að hann hafi verið á ofsahraða, væntanlega með það að markmiði að venda umferðina. Það leit út fyrir að lögreglubílarnir hafi stýrt steypubílnum frá umferðinni á móti.
>
> Það virtist vera mikil samhæfing í hvernig lögreglubílarnir brugðust við, sem hlýtur að endurspegla góða þjálfun og hæfa lögreglumenn, því þetta gerðist auðvitað mjög hratt.
>
> Ég gat ekki séð annað, en það sé þínu fólki að þakka, að ekki hafi orðið stórslys.
>
> Væntanlega fær lögreglan oft kvartanir og í því ljósi langaði mig að senda þér stutta línu því þið eigið mikið hrós skilið fyrir þessi faglegu viðbrögð.
>
> Bestu kveðjur,
> xxxxxx