12 Október 2006 12:00
Allmargir þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglunnar í Reykjavík í gær. Ólíklegustu hlutum er stolið en tjónið er alltaf bagalegt fyrir þá sem fyrir því verða. Miðað við fjölda mála er því miður talsvert af þjófum á kreiki og því vissara að passa vel upp á hlutina sína.
Símar og veski virðast freista margra og svo var líka í gær. Þá var stolið tveimur símum og tveimur veskjum. Matvöruverslanir verða líka fyrir barðinu á þjófum. Einn fingralangur fór í búð í gær og hvarf síðan á braut með nautakjöt undir höndum. Annar reyndi að stela áfengi en sá var gripinn með flöskuna í fórum sínum.
Þá var vegabréfi stolið frá hóteli í borginni og í austurbænum söknuðu verslunareigendur páfagauks. Í vesturbænum hvarf þvottavél úr sameign fjölbýlishúss og í einum grunnskólanna var piltur tekinn með vindlinga sem hann hafði stolið.