2 Mars 2020 16:53
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. – 29. febrúar, en alls var tilkynnt um 52 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 23. febrúar. Kl. 14.33 missti ökumaður á leið suður Kringlumýrarbraut stjórn á bifreið sinni í hægri beygju eftir aðrein að Bústaðavegi með þeim afleiðingum að hún lenti á umferðarskilti og ljósastaur við gatnamótin. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.56 missti ökumaður á leið suður Vínlandsleið stjórn á bifreið með þeim afleiðingum að hún hafnaði á grjóthleðslu og trjágróðri í miðju Krókstorgs og valt síðan á hliðina. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 26. febrúar kl. 9.42 var fólksbifreið ekið á mann á reiðhjóli á Fiskislóð. Reiðhjólamaðurinn var við miðlínu vegar og hugðist taka vinstri beygju þegar áreksturinn varð, en aðspurður sagðist ökumaður fólksbifreiðarinnar, sem ók sömu akstursleið og var að taka fram úr öðru ökutæki, ekki hafa séð reiðhjólamanninn í aðdraganda slyssins. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 27. febrúar kl. 13.04 varð aftanákeyrsla á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, en fremri bifreiðin var kyrrstæð á rauðu ljósi þegar slysið varð. Hálka var á vettvangi. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 29. febrúar kl. 16.14 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut, á móts við Orkuna í Kópavogi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar hægði snögglega ferðina vegna umferðar fram undan, en ökumaður aftari bifreiðarinnar náði ekki að bregðast við í tæka tíð. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.