25 Október 2006 12:00
Því hefur stundum verið haldið fram að konur tali mikið í síma. Þetta getur greinilega líka átt við um karla ef marka má tölur úr umferðareftirliti lögreglunnar í Reykjavík í gær. Þá stöðvaði hún á annan tug ökumanna sem töluðu í síma án þess að nota handfrjálsan búnað. Liðlega 90% þeirra voru karlmenn.
Við umferðareftirlit í gær var einnig fylgst með notkun bílbelta og fjölmargir ökumenn voru stöðvaðir af þeim sökum. Þar voru karlmenn líka í miklum meirihluta hinna brotlegu eða 75%. Stærstur hluti þeirra var á fertugsaldri. Rétt er að minna á að farþegum bera líka að nota bílbelti en á því var misbrestur. Hinir sömu eiga líka sekt yfir höfði sér.
Karlar voru þó ekki alslæmir í öllum málum gærdagsins en á einu sviði stóðu konurnar þeim að baki. Á annan tug ökumanna voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og þar voru konur í meirihluta, tæplega 60%. Athygli vekur að það voru einkum konur yngri en 30 ára sem þar áttu hlut að máli.