21 Janúar 2020 10:14
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur og einn lést í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. janúar, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 12. janúar kl. 21.22 varð harður árekstur fólksbíls og snjóruðningstækis á Reykjanesbraut, á móts við álverið, en ökutækin voru að koma úr gagnstæðri átt. Ökumaður fólksbílsins lést í slysinu. Á vettvangi var þæfingur, mikill vindur, snjókoma og hálka.
Þriðjudaginn 14. janúar kl. 0.11 varð árekstur á gatnamótum Sæbrautar og Laugarnesvegar. Annarri bifreiðinni var ekið vestur Sæbraut, en hinni Laugarnesveg og inn á gatnamótin. Talið er að síðarnefndi ökumaðurinn hafi ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótunum. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 15. janúar kl. 13.08 varð árekstur bifreiðar og vinnuvélar á gatnamótum Vatnsendahvarfs og Ögurhvarfs. Þarna eru umferðarljós, en ágreiningur er uppi um stöðu þeirra þegar slysið varð. Ökumaður bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Ökumaður vinnuvélarinnar er grunaður um fíkniefnaakstur.
Föstudaginn 17. janúar kl. 21.07 fór bifreið fram af Óseyrarbryggju og hafnaði í sjónum. Þrír voru í bílnum og voru þeir allir fluttir á slysadeild. Frost og hálka var á vettvangi.
Laugardaginn 18. janúar kl. 7 missti ökumaður stjórn á bifreið sinn á leið vestur Geirsgötu með þeim afleiðingum að hún rakst utan í götukant, snerist á veginum og rakst utan í aðra bifreið sem var á sömu akstursleið. Síðarnefnda bifreiðin hafnaði á steinsteyptum stólpa, en sú fyrri valt út fyrir veg og hafnaði þar á hvolfi. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Snjór og hálka var á vettvangi.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.