9 September 2006 12:00
Þriðja önn grunnnáms Lögregluskóla ríkisins árið 2006 hófst þriðjudaginn 5. september s.l. 35 nemendur stunda nám á önninni en henni lýkur með útskrift föstudaginn 8. desember n.k.
Eitt af því sem er hefðbundið í fyrstu viku þriðju annar er að nemendur ganga á Esjuna og svo var einnig nú. Frekar leiðinlegt veður var meðan á göngunni stóð, þoka, vindur og talsverð rigning, en samt sem áður tókst öllum nemendunum að komast alla leið.
Nokkur keppni er ætíð milli nemendanna að vera fyrstur á toppinn og keppnin var e.t.v. meiri nú en áður því meðal þeirra sem tóku þátt í göngunni var nemandi úr danska Lögregluskólanum, Jim Terndrup. Jim hefur verið hér á landi sem skiptinemi í mánuð og kynnt sér nám við Lögregluskólann og starfsemi íslensku lögreglunnar. Dvöl Jim er hluti af verkefninu NORDCOP sem Lögregluskóli ríkisins tekur þátt í ásamt lögregluskólum hinna Norðurlandanna.
Þrátt fyrir að íslenskir nemendur hafi eindregið viljað hefna fyrir tapið gegn Dönum í landsleiknum kvöldið áður fór svo að Jim var fyrstur á toppinn, þótt svo að hann hafi villst í þokunni og þurft að snúa við til að rata á rétta slóð aftur. Ekki var laust við að sumum þætti súrt í broti að tapa fyrir Dana, og það í fjallgöngu. Þess ber þó að geta að Jim er í gríðarlega góðu líkamlegu formi og því engin skömm að tapa fyrir honum.
Á myndinni eru, séð frá vinstri til hægri, þeir þrír sem komust fyrstir á toppinn að þessu sinni, Ólafur Jónsson, sem var þriðji, Finnbogi Jónasson, sem var annar og loks Jim Terndrup.