18 September 2006 12:00
Tíu ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík um helgina. Það eru ívið færri en undanfarnar helgar, sem verður að teljast jákvætt. Engu að síður hafði lögreglan afskipti af fjölmörgum öðrum ökumönnum fyrir ýmsar sakir.
Á fjórða tug ökumanna voru teknir fyrir hraðakstur. Tveir voru á rúmlega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða og þeirra bíður ökuleyfissvipting og 60 þúsund króna sekt. Fimm höfðu ökuskírteini ekki meðferðis og sex höfðu ekki hirt um að endurnýja það. Tveir ökumenn, sem lögreglan stöðvaði um helgina, reyndust hafa verið sviptir ökuréttindum.
Þá var för þriggja ökumanna stöðvuð en enginn þeirra hafði tekið bílpróf. Sá yngsti var 16 ára en hann hafði fengið bíl vinar síns að láni. Hraðakstur piltsins vakti athygli lögreglunnar en að auki gleymdi hann að tendra ökuljósin.