21 September 2006 12:00
Í gærmorgun kviknaði í malbikunarvél í útjaðri Reykjavíkur. Þar var töluverður eldur en ekki urðu slys á fólki. Vélin er hinsvegar talin ónýt. Sömu sögu er að segja af steypudælu sem var notuð við framkvæmdir í rafstöð. Við vinnu þar í gær kviknaði eldur og framkvæmdaaðilar verða líklega að fá sér aðra steypudælu.
Bensín er líka eldfimt eins og allir vita en nokkuð er um að þjófar ásælist þennan vökva. Tveir bensínþjófnaðir voru tilkynntir til lögreglunnar í Reykjavík í gær. Í báðum tilfellum var um að ræða fólk sem tók eldsneyti á bíla sína á bensínstöðvum en ók síðan í burtu án þess að greiða fyrir það.
Og örlítið meira um þjófnaðarmál. Rúmlega tvítug stúlka hefur kært þjófnað á gleraugum. Ekki er vitað hvað þjófinum gekk til enda eru flest gleraugu þeirrar gerðar að þau nýtast aðeins eiganda sínum. Ekki er heldur vitað um áform ungs manns sem var gripinn glóðvolgur í verslun sem sérhæfir sig í hjálpartækjum ástarlífsins. Sá reyndi að stela erótískri kvikmynd en var staðinn að verki.