29 September 2006 12:00
Höfuðborgin, líkt og fleiri sveitarfélög, var myrkvuð í gærkvöld en þá var slökkt á allri götulýsingu frá klukkan 22:00 – 22:30. Lögreglan í Reykjavík var með töluverðan viðbúnað vegna þessa en flest gekk nú nokkuð vel fyrir sig. Umferðin var áfallalaus en þó sköpuðust vandræði á gatnamótum þar sem ökumenn stöðvuðu bifreiðar sínar og slökktu ljósin. Af þessu skapaðist mikil hætta.
Skipuleggjendur uppákomunnar höfðu hvatt fólk til að vera heima og njóta þaðan þess sem himininn hefur upp á að bjóða. Margir kusu samt að vera á ferðinni og þá safnaðist fólk saman á mörgum stöðum í borginni, t.d. við Perluna, á Ártúnshöfða og Skólavörðuholti. Við suma þessara staða var ökutækjum illa lagt en umferðin í gærkvöld var svipuð og á annasömum föstudegi.
Að síðustu ber að nefna flugelda en einhverjir sáu ástæðu til að skjóta þeim á loft í gærkvöld. Það er með öllu óheimilt enda segir m.a. þetta í reglugerð um skotelda; Almenn notkun á skoteldum er óheimil, nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum.