2 Ágúst 2006 12:00
Nú fer í hönd ein stærsta ferðahelgi ársins, Verslunarmannahelgin. Af því tilefni vilja lögregluliðin á SV horninu beina því til vegfarenda að þeir hugi að því að bifreiðar þeirra og tjaldvagnar, felli- eða hjólhýsi sem þau draga séu í lagi og búin þeim búnaði sem við á.
Nokkuð hefur borið á því að breiddarspegla vanti á bifreiðar sem draga eftirvagna en skylt er að vera með slíka spegla beggjavegna á bifreiðunum. Þá má eftirvagn að hámarki vera 60 sm breiðari en bifreiðin sem dregur hann, þ.e.a.s. ekki standa meira en 30 sm út til hliðar við ökutækið sem dregur.
Borið hefur á því að ökumenn hafa ekki áttað sig á því að þeir sem fengið hafa B réttindi (almenn ökuréttindi) útgefin eftir mitt ár1997 hafa ekki réttindi til að stjórna æki (bíl og eftirvagni) ef samanlögð heildarþyngd þessara ökutækja fer yfir 3500 kg.
Rétt er að minna á að hámarkshraði vörubifreiða sem eru þyngri en 3500 kg. að heildarþyngd er 80 km/klst. Sama gildir um bifreiðar sem draga eftirvagna sem búnir eru hemlum. Hámarkshraði bifreiðar sem dregur hemlalausan eftirvagn er 60 km/klst enda sé heildarþyngd vagnsins 750 kg eða meira.
Sérstök áhersla verður lögð á að fylgjast með ölvunarakstri um helgina og eru ökumenn hvattir til að leggja ekki af stað að morgni dags fyrr en þeir eru þess fullvissir að allt áfengi sé úr þeim.
Þegar farið er að heiman í ferðalög er gott að gera nágrönnum sínum viðvart og biðja þá um að fylgjast með heimilum sínum. Dæmi eru um að óprúttnir einstaklingar nýti sér þau tækifæri sem bjóðast til að fara inn á heimili fólks sem er fjarverandi og ná sér þar í verðmæti.
Að undanförnu hefur borið á ofsaakstri bifhjóla á þjóðvegum og í þéttbýli. Lögreglan skorar á þá sem hjólum þessum aka að sýna ábyrgð og láta af þessum akstri. Um er að ræða athæfi sem kemur okkur öllum við og hegðan sem þessi er langt frá því að vera einkamál þeirra sem aka hjólunum. Þá er þeim orðum beint til þeirra sem kjósa að leyna upplýsingum um meinta félaga eða vini sem stungið hafa af frá afskiptum lögreglu að athafnaleysi þeirra kann að verða til þess að viðkomandi ökumaður haldi iðju sinni áfram og verði sjálfum sér eða öðrum að fjörtjóni. Vinur er sá er til vamms segir.
F.h. lögregluliðanna á SV horninu,
Oddur Árnason aðstoðaryfirlögregluþjónn