3 Ágúst 2006 12:00
Á morgun er búist við mikilli umferð þegar verslunarmannahelgin gengur í garð. Af því tilefni eru vegfarendur beðnir um að hafa nokkur atriði í huga. Á mótum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar er unnið að mislægum gatnamótum. Þar eru hæðartakmörk 4,2 metrar og 50 km hámarkshraði. Umferð um þetta svæði mun ganga greiðlega fyrir sig svo framarlega sem ökumenn taka tillit til þess.
Vegfarendum á austurleið er jafnframt bent á Breiðholtsbraut. Um hana má aka til að komast á Suðurlandsveg. Einnig er hægt að fara um Höfðabakka og Bæjarháls í sama tilgangi. Þá er minnt á framkvæmdir í Mosfellsbæ, norðan við Álafosskvosina. Þar þurfa ökumenn að sýna sérstaka varúð.
Lögreglan í Reykjavík biður alla að fara varlega og sýna aðgát í umferðinni um þessa miklu ferðahelgi. Fólk er hvatt til að muna eftir góða skapinu og sýna þolinmæði. Með góðum vilja er hægt að fækka slysum og tryggja það að fólk eigi skemmtilegar minningar frá þessari helgi.