17 Desember 2019 15:29
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. desember, en alls var tilkynnt um 42 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 8. desember kl. 7.47 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Stekkjarbakka og Stekkjarbakka. Annarri bifreiðinni var ekið suður Stekkjarbakka og hinni austur Stekkjarbakka, en grunur er um að annar ökumaðurinn hafið ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Fimm umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 9. desember. Kl. 11.29 missti ökumaður á leið vestur Vesturlandsveg stjórn á bifreið sinni, rétt við Suðurlandsveg (brú), með þeim afleiðingum að hún snerist á veginum og lenti á annarri bifreið, sem var ekið í sömu hátt. Snjókrapi og hálka var á vettvangi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 13.02 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Vatnagarða og Sægarða. Annarri bifreiðinni var ekið norður Sægarða, en hinni austur Vatnagarða og þar er stöðvunarskylda. Ökumaðurinn sem ók Vatnagarða er jafnframt grunaður um að hafa verið að tala í farsíma í aðdraganda slyssins. Síðastnefndi ökumaðurinn og farþegi úr bifreið hans voru fluttir á slysadeild. Kl. 13.33 var bifreið ekið austur Bríetartún og á kyrrstæða, mannalausa bifreið á móts við Þórunnartún. Í aðdragandanum hafði gangandi vegfarandi farið út á götuna og reyndi ökumaðurinn að afstýra slysi með fyrrgreindum afleiðingum. Farþegi í bílnum var fluttur á slysadeild. Kl. 16.02 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Listabrautar og Kringlunnar. Annarri bifreiðinni var ekið vestur Listabraut, en hinni suður Kringluna. Grunur er um að annar ökumaðurinn hafi ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.12 varð tveggja bíla árekstur á Vesturlandsvegi við Höfðabakkabrú. Báðum bifreiðunum var ekið í austur, en áreksturinn varð þegar ökumaður annarrar þeirra hugðist skipta um akrein. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.