10 Ágúst 2006 12:00
Sumir ökumenn eiga mjög erfitt með að halda sig við leyfilegan hámarkshraða. Það sannaðist enn og aftur við umferðareftirlit lögreglunnar í Reykjavík í gær. Þá stöðvaði hún för tæplega þrítugs karlmanns en þetta var í sjötta sinn á árinu sem viðkomandi er tekinn fyrir hraðakstur. Þetta var jafnframt fjórða umferðarlagabrot hans af þessu tagi á aðeins hálfum mánuði.
Sektargreiðslur fyrir þessi sex brot nema samtals 170 þúsund krónum en þessi ökumaður virðist kæra sig kollóttan. Samhliða hefur hann fengið á sig ellefu punkta. Ökumaður sem fær tólf punkta er sviptur ökuleyfi í þrjá mánuði og því viðbúið að fyrrnefnds ökumanns bíði senn slík refsing. Þess skal getið að ökumaður með bráðabirgðaskírteini er sviptur ökuleyfi við sjö punkta. Sviptingin er hins vegar jafnlöng eða í þrjá mánuði.