2 Júlí 2006 12:00
Aðfaranótt sunnudagsins 2. júlí var til þess að gera róleg í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli. Á föstudag og laugardag var talsverð umferð á vegum og gekk hún að mestu óhappalaust fyrir sig. Bifhjólamaður á Suðurlandsvegi við Brekknaholt missti stjórn á bifhjóli sínu á leið vestur snemma í gærmorgun með þeim afleiðingum að lenda út af veginum. Bifhjólið er mjög mikið skemmt ef ekki ónýtt en ökumaðurinn slapp því sem nánast ómeiddur en hann var vel búinn hvað öryggisbúnað varðar til aksturs bifhjóls.
Talið er að 200 til 300 manns séu í Þórsmörk og rúmlega 300 háskólanemar eru saman komnir í Landeyjum til skemmtanahalds. Í nótt var einn ökumaður tekinn grunaður um ölvun við akstur og lítið eitt hefur borið á því að ökumenn fari of greitt, nokkrir hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur. Lögreglan hefur um helgina stöðvað fjölda ökumanna til að kanna ástand þeirra með tilliti til ölvunar og annarra vímuefna. Fíkniefnalögreglumenn hafa verið að störfum í umdæmi lögreglunnar um helgina með leitarhund frá Tollgæslunni sér til aðstoðar.
Heldur óvæntur gestur gisti vistarverur lögreglunnar í nótt, aðfaranótt sunnudags 2. júlí, en um er að ræða stóran páfagauk sem komið hafði flögrandi að Gunnarsholti á Rangárvöllum í gærkvöldi, laugardagskvöld, en þar var hann handsamaður. Páfagaukurinn var settur á bak við rimmla, í þar til gert fuglabúr og gefið að éta. Ljóst er að umræddur páfagaukur hefur sloppið frá eiganda sínum og náð að flögra um í náttúru Íslands en lögreglan á Hvolsvelli biður þá sem tapað hafa stórum páfagauki að hafa samband í síma 488 4110.
Í dag sunnudag á búast við mikilli umferð á Suðurlandsvegi í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli og vill lögreglan hvetja ökumenn að haga akstri sínum í ljósi aðstæðna og virða þær reglur sem gilda um leyfðan hámarkshraða á vegum, sýna þolinmæði og tillitssemi. Sé það gert má verulega draga úr líkum á umferðaróhöppum. Þá vill lögreglan biðja þá sem voru að skemmta sér í nótt og neyttu áfengis að bíða til kvölds með að fara út í umferðina sem stjórnendur ökutækja því mjög algengt er að ökumenn fari of snemma á stað á ökutækjum sínum eftir næturskemmtan og áfengisneyslu.