11 Júlí 2006 12:00
Enn þarf lögreglan í Reykjavík að hafa afskipti af ökumönnum fyrir of hraðan akstur. Á síðasta sólarhring var för allmargra ökumanna stöðvuð vegna hraðaksturs. Á Suðurlandsvegi virtist ökumaður bifhjóls vera að flýta sér mjög mikið en hann mældist á 141 km hraða. Í Ártúnsbrekkunni var líka ökumaður sem virtist á hraðferð inn í eilífðina. Sá ók á 125 km hraða en viðkomandi er nýorðinn 17 ára og á greinilega margt ólært um umferðina. Þá voru sex ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur og er það verulegt áhyggjuefni.
Lögreglan hafði einnig afskipti af ökumanni sem virti ekki reglur um neglda hjólbarða. Á bíl viðkomandi voru nagladekk en slíkt er með öllu óheimilt á þessum árstíma. Umræddur ökumaður fær sekt fyrir þetta brot.