22 September 2019 00:49
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af nokkrum aðilum í húsi í Hafnarfirði í kvöld og lagði hald á bæði áfengi og peninga, sem taldir eru vera tilkomnir af ólöglegri sölu áfengis. Þegar lögreglan knúði dyra var samkvæmi á vegum vélhjólaklúbbs í gangi á staðnum, en klúbburinn hefur tengingu við erlenda vélhjólaklúbba, sem hafa verið skilgreindir sem brotahópar. Enginn var handtekinn í þessum aðgerðum.
Afskiptin í kvöld eru liður í aðgerðum og eftirliti lögreglu með skipulagðri brotastarfsemi. Frekari upplýsingar verða ekki veittar að svo stöddu.