21 September 2019 09:30
Bygging lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík hófst í árslok 1961, en húsið teiknaði hinn landskunni arkitekt og íþróttafrömuður, Gísli Halldórsson. Lögreglustöðin var tekin í notkun í áföngum eftir því sem byggingarframkvæmdum miðaði áfram. Hornsteinn var lagður 1963 og 1966 flutti umferðardeildin úr bragga við Snorrabraut og í kjallara hússins og Lögregluskólinn fékk líka inni í nýju lögreglustöðinni um svipað leyti, en á fyrstu hæðinni. Í ársbyrjun 1970 fjölgaði enn í húsinu, en þá var tekin þar í notkun fullkomin fangageymsla á 2. hæð. Það var svo 4. nóvember 1972 sem lögreglan flutti alfarið með starfsemi sína úr gömlu lögreglustöðinni í Pósthússtrætinu og í nýju stöðina á Hverfisgötu. Samhliða var reyndar lengi starfrækt lítil lögreglustöð í Tryggvagötu, en sú saga verður ekki rakin hér.