5 Apríl 2006 12:00
Nú fyrr í dag, eða rétt fyrir kl.16:00, voru fjórir björgunarsveitarmenn frá Björgunarfélagi Ísafjarðar, að aðstoða fjórar manneskjur sem voru fastar í ófærð, á tveimur bifreiðum, á Súðavíkurhlíð, n.t.t. rétt innan til við Brúðarhamar. Mikil ófærð var þá á Kirkjubóls og Súðavíkurhlíð og höfðu björgunarsveitarmennirnir verið kallaðir út til aðstoðar fólkinu. Þegar björgunarsveitarmennirnir voru nýkomnir á vettvang mun lítið snjóflóð hafa komið úr hlíðinni fyrir ofan veginn og skollið á annarri bifreiðinni er sat föst á veginum. Bifreiðin mun hafa kastast til og lent á einum björgunarsveitarmanninum og klemmt hann á milli bifreiðarinnar og bifreiðar björgunarsveitarmannanna. Maðurinn mun hafa fótbrotnað á öðrum fæti og var hann fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði. Engin slys urðu á öðrum en áðurgreindum björgunarsveitarmanni og hefur fólkið sem sat fast í bifreiðum sínum verið flutt til Ísafjarðar.
Eins og er hefur veginum um Óshlíð, Kirkjubólshlíð og Óshlíð verið lokað meðan veðrið gengur yfir.