3 Mars 2006 12:00
Lögreglan í Árnessýslu hætti að sinna sjúkraflutningum um síðustu áramót er Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi tók við þeim. Samhliða þessu fækkaði föstum stöðugildum lögreglumanna um 3,5 Mönnum hefur verið ljóst um alllangt skeið að sjúkraflutningarnir drægju úr möguleikum lögreglunnar til að sinna löggæslu og er því fróðlegt að skoða samanburð fyrstu tveggja mánuða ársins í ár við sama tímabil áranna á undan.
Kærum vegna of hraðs aksturs hefur fjölgað verulega frá því í fyrra en við samantekt eftir fyrstu 2 mánuði ársins kemur í ljós að földi þeirra ökumanna sem kærðir hafa verið vegna of hraðs aksturs í umdæmi lögreglunnar á Selfossi er 341 en á sama tímabili á árinu 2005 voru þeir 103, 147 árið 2004 og 101 á árinu 2003. Hér verður að hafa í huga að tíðarfar gæti átt þátt í þessum mun á milli ára og sama þróun virðist vera hjá sumum öðrum liðum hvað þetta varðar
Þá hefur ölvuðum ökumönnum fjölgað nokkuð, en á árinu 2003 voru þeir 8 á fyrstu 2 mánuðum þess árs, 14 á árinu 2004, 10 á árinu 2005 en 23 á árinu 2006 ekki verður séð önnur skýring á þessu en aukið eftirlit lögreglu.
Fíkniefnabrotum hefur hinsvegar fækkað frá árunum á undan en janúar og febrúar á árinu 2003 voru þau 10, 13 á sama tíma árið 2004, 15 árið 2005 en 8 í ár. Á þessu kunna að vera ýmsar skýringar, ein er hugsanlega sú að aflífa þurfti fíkniefnahund sem verið hefur hér við embættið eftir að alvarleg hjartabilun greindist í honum. Hugmyndir eru innan embættisins að fá 2 fíkniefnahunda en ljóst er að mikill kostur væri af því að hafa 2 menn á sitt hvorri vaktinni með hund tiltækann og jafnframt hefðu þeir stuðning hver af öðrum við þjálfun og æfingar. Slíkir hundar eru nú sérvaldir og forþjálfaðir í Noregi fyrir milligöngu ríkislögreglustjóra og er verið að kanna möguleika á fjármögnun slíkra kaupa en reikna má með að hver hundur kosti á aðra milljón kominn til starfa hér. Auk þessa er ljóst að stór fíkniefnarannsókn á máli sem kom upp seint á síðasta ári hefur dregið úr möguleikum til eftirlits enda rannsókn þess yfirgripsmikil og tímafrek.