6 Mars 2006 12:00
Síðustu misseri hefur forvarnahópur í Rangárþingi verið að störfum og mun hópurinn síðar í þessum mánuði kynna drög að heildstæðri forvarnastefnu fyrir Rangárþing. Einn liður í þessari undirbúningsvinnu er kynning á niðurstöðum rannsóknar sem unnin var á vegum Rannsóknar- og greiningu í mars 2005 meðal nemenda í elstu bekkjum grunnskólanna í sýslunni.
Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri, Gils Jóhannsson lögregluvarðstjóri og Árni Þorgilsson æskulýðs- og menningarfulltrúi Rangárþings eystra heimsóttu nemendur 7. 8. 9. og 10. bekkja Laugalandsskóla í Holtum snemma í morgun og síðar sama dag nemendur 8. 9. og 10. bekkja Helluskóla, þar sem farið var yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar. Á morgun, þriðjudag, verða nemendur 8. 9. og 10. bekkja Hvolsskóla heimsóttir með sama hætti.
Nokkur atriði varðandi niðurstöður rannsóknarinnar vöktu talsverða athygli nemendanna í dag og þá sérstaklega sá liður er varðar notkun nemenda á nef- og munntóbaki en sú notkun virðist vera talsverð og langt yfir meðaltali sé tekið mið af höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild en þetta eru samanburðarhópar gagnvart nemendum Rangárþings í könnunni.
Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar á kynningum á niðurstöðum rannsóknarinnar í Laugalandsskóla og Helluskóla fyrr í dag.
Um miðjan mars n.k. verða fundir með foreldrum allra skólanna með nemendur á efsta stigi grunnskólanna þar sem m.a. þessar og ítarlegri niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar. Fundir verða á Hellu 14. mars í Helluskóla kl.20:30 og síðan í Hvolsskóla 15. mars kl.20:30. Foreldrar og forráðamenn nemenda skólanna eru hvattir til að mæta á fundina sem og sveitarstjórnarmenn, forstöðumenn stofnana og félagasamtaka.