14 Ágúst 2019 13:09
Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. ágúst, en alls var tilkynnt um 45 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 5. ágúst kl. 12.45 varð árekstur tveggja bíla sem komu úr gagnstæðri átt á Suðurlandsvegi, á móts við Rauðhóla, en annar þeirra fór yfir á öfugan vegarhelming. Þrír voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 6. ágúst. Kl. 17.21 varð árekstur tveggja bíla á gatnamótum Víkurvegar, Borgarvegar og Fossaleynis. Annarri bifreiðinni var ekið austur Borgaveg og hinni vestur Fossaleyni. Einn var fluttur á slysadeild. Kl. 18.49 var ekið á ungan dreng á gangbraut á Hjallabraut og var hann fluttur á slysadeild. Ökumaðurinn ók af vettvangi og var lýst eftir honum í fjölmiðlum, en án árangurs. Og kl. 19.22 féll vespa, með ökumann og farþega, sem var ekið Austurberg og inn á bifreiðstæði við Breiðholtssundlaug, í götuna. Ökumaðurinn ætlaði að leita sér læknisaðstoðar, en bæði hann og farþeginn voru hjálmlausir.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 7. ágúst. Kl. 12.20 varð árekstur bifhjóls og bifreiðar á mótum húsanna á Suðurlandsbraut 32 og 34. Talið er að gróður sem þar er hafi byrgt þeim báðum sýn. Ökumaður bifhjólsins, sem var með hjálm, ætlaði að leita sér læknisaðstoðar. Kl. 13.02 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Kópavogstúns og Kópavogsgerðis. Annar ökumanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.17 varð árekstur reiðhjóls og vespu á göngustíg við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 8. ágúst. Kl. 7.47 féll ökumaður bifhjóls í götuna á gatnamótum Höfðabakka og Dverghöfða. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.03 var bifreið ekið á tré hjá bifreiðastæði við Rúmfatalagerinn í Skeifunni, en ökumaðurinn hafði í aðdragandanum stigið á bensíngjöfina í stað þess að bremsa. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 9. ágúst. Kl. 15.56 féll maður af reiðhjóli á göngustíg nærri Fífunni. Reiðhjólamaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.19 varð árekstur tveggja bíla við bifreiðastæði í Vallarhúsum. Ungbarn var í öðrum bílnum og var það flutt á slysadeild.
Laugardaginn 10. ágúst kl. 20.02 missti ökumaður bifreiðar, sem var ekið vestur Sundagarða, stjórn á henni og ók yfir umferðareyju og stöðvaðist þar á öfugum vegarhelmingi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.