6 Janúar 2006 12:00
Þann 4. janúar s.l. hófu 36 nýnemar nám á fyrstu önn grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins. Námið á önninni tekur rúmlega 4 mánuði og í maí fara nemendurnir í starfsþjálfun hjá lögregluembætti á höfuðborgarsvæðinu.
Af þessum nýnemum hafa 17 starfað sem afleysingamenn í lögreglunni, allt frá þremur mánuðum til tæplega þriggja ára. Að þessu sinni er meðalaldur nýnema 25,53 ár, sem er rúmlega þremur árum lægri meðalaldur en hjá nemendahópi síðasta árs. 8 konur eru í hópi nýnemanna eða 22,22%.
18 af nýnemunum hafa lokið stúdentsprófi, 3 þeirra hafa lokið háskólaprófi og 6 til viðbótar hafa stundað háskólanám. Starfsreynsla nýnemanna er margvísleg en í hópnum eru m.a. sjúkraliði, múrari, sálfræðingur, rafvirki, einkaþjálfari, vélsmiður, matsveinn, slátrari, vélvirki, tækniteiknari, rafsuðumaður og bifvélavirki.
Meðal þess sem nýnemarnir hafa sem áhugamál er tónlistarflutningur, fjallamennska, skíðaíþróttir, hestamennska, knattspyrna, akstursíþróttir, hundaræktun og golf.