3 Ágúst 2019 10:00
Þá er komið að því að fletta aftur upp í lögreglusamþykktinni frá árinu 1939 enda margt forvitnilegt þar að lesa. „Enginn má ganga dulklæddur á almannafæri, eða í búningi, sem misbýður velsæmi eða getur raskað allsherjarreglu. Sömuleiðis er bannað að sýna af sér hneykslanlega hegðun, t.d. með því að ávarpa menn ókurteisum eða ósæmilegum orðum…“ Um háreysti eru líka höfð allnokkur orð. „Á almannafæri má ekki fljúgast á, æpa, kalla, blístra, syngja hátt né hafa í frammi annan hávaða eða ofsalegt eða móðgandi háttalag, sem raskar allsherjarreglu, eða ónáðar vegfarendur, viðstadda, eða þá, sem búa í nágrenninu.“ Og minnst er sérstaklega á dyrabjölluat. „Bannað er að hafast nokkuð það að, sem raskar næturró manna, og enginn má að ófyrirsynju berja á dyr eða glugga, hringja dyrabjöllum eða hafast neitt það að, sem veldur ónæði.“
Þá er þar að finna ákvæði um jafnt gangstéttar sem byssur. „Stéttir fram með götum eru eingöngu ætlaðar gangandi mönnum; eftir þeim má eigi fara með sleða, reiðhjól, hjólbörur, vagna né önnur aktól, nema barnavagna, og eigi bera, draga, velta eða á annan hátt flytja með sér fyrirferðarmikla hluti, svo sem tunnur, hey eða annað, sem tálmar umferðinni. Ljái, gaddhrífur, skotvopn og aðra hluti, sem tjón getur hlotizt af, má aðeins flytja eftir götunni sjálfri, og skal svo um það búið, að engin hætta stafi af þeim. Hlaðnar byssur má ekki bera á götum bæjarins, eða annars staðar á almannafæri. Byssur skal ávallt bera þannig, að opið viti upp.“
Og síðast en ekki síst er það hornblástur, sem er auðvitað ekki undanskilinn í lögreglusamþykkt þess tíma. „Það er bannað að aka eða ríða á móti hópgöngum og líkfylgdum, eða fram hjá þeim. Skal víkja úr vegi fyrir þeim, ef unnt er, eða nema staðar meðan þær fara fram hjá. Hópganga telst, þegar fólk streymir af íþróttavelli e.þ.h. Ekki má aka eða ríða um götur, þar sem fólk hefir safnazt saman til að hlusta á hornblástur eða þess háttar.“