25 Desember 2005 12:00
Jóladagsmorgun kl. 07:56 var tilkynnt um að stórt timburstykki hafi fokið á glugga í sjúkrahúsinu í Bolungarvík og brotið þar rúður. Svipuð tilkynning barst frá öðru húsin sem stendur skammt frá sjúkrahúsinu. Mjög hvasst var í Bolungarvík á þessum tíma. Í ljós kom að þak hafði fokið af Stúkuhúsinu við Skólastíg og hafði brak úr þakinu hafnað á fjórum húsum allt frá Skólastíg að sjúkrahúsinu sem stendur við Miðstræti. Stúkuhúsið var samkomustaður Bolvíkinga á fyrrihluta síðustu aldar en hefur staðið ónotað í áratugi og í lélegu ástandi. Engin slys urðu á fólki en eitthvað tjón hlaust af er rúður brotnuðu og klæðing á húsum skemmdist.
Björgunarsveitin Ernir var kölluð út og sá björgunarsveitarmenn um að negla plötur fyrir brotna glugga og stöðva frekara fok á braki og járnplötum.
Er líða tók á morguninn kom í ljós að númerslaus flutningabifreið sem stóð við Ljósaland hafi fokið á hliðina. Þá kom einnig í ljós að þak hafði fokið af fjárhúsum í Minni-Hlíð en .þar voru um 140 fjár í húsum. Ekki er talið að fénu hafi orðið meint af en unnið verður að því að koma fénu í önnur hús.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu fór vindhraði í 36.6 m/sek. í Bolungarvík þennan morgun en á Þverfjalli, ofan Ísafjarðar, fór vindur í 44 m/sek. á svipuðum tíma og tjónið varð í Bolungarvík. Vindur var sunnanstæður og fylgdi þessu allt að 10° c hiti.
Vegna þessara veðuraðstæðna hefur grjóthrun orðið víða á Óshlíð, þó aðallega undir Búðarhyrnu og Arafjalli, og vill lögreglan í Bolungarvík beina þeim tilmælum til vegfaranda að fara með gát um Óshlíð.