8 Júlí 2019 11:07
Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 30. júní – 6. júlí, en alls var tilkynnt um 32 umferðaróhapp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 1. júlí. Kl. 17.17 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til suðurs, á móts við Frumherja við Dalveg, en fremri bifreiðin hafði stöðvað skyndilega vegna mikillar umferðar fram undan. Báðir ökumennirnir ætluðu að leita sér aðhlynningar á slysadeild. Og kl. 18.47 féll unglingsstúlka, sem hjólaði vestur á gangstétt samhliða Miðskógum, á bifreið sem var ekið norður Bláskóga að gatnamótunum við Miðskóga. Talið er að stúlkan hafi tekið of skart í framhemla hjólsins með fyrrgreindum afleiðingum. Stúlkan ætlaði að leita sér aðhlynningar á slysadeild.
Föstudaginn 5. júlí kl. 15.54 varð tveggja bíla aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut til austurs, undir göngubrú á móts við Suðurfell, en þar var mikil umferð á þessum tíma og höfðu ökutækin fyrir framan því dregið úr hraðanum. Fjórir voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 6. júlí kl. 20.06 hafnaði maður, sem hjólaði austur Vesturgötu, á bifreið sem var ekið norður Aðalstræti. Reiðhjólamaðurinn, sem grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.