24 Júní 2019 16:00
Í síðustu viku slösuðust þrír vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. júní, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhapp í umdæminu.
Sunnudaginn 16. júní kl. 9.54 var bifreið ekið frá Heiðmerkurvegi, norður Elliðavatnsveg, í veg fyrir bifhjól svo árekstur varð með ökutækjunum. Ökumaður bifhjólsins var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild, en hann kvartaði undan eymslum í baki og vinstri ökkla.
Mánudaginn 17. júní kl. 3 hafnaði bifreið, sem var ekið Grettisgötu á móti akstursstefnu við Barónsstíg, á tveimur mannlausum bifreiðum, sem þar var lagt í stæði við gatnamótin. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar – og fíkniefnaakstur, var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.
Fimmtudaginn 20. júní kl. 1.12 var bifreið ekið suður Lækjargötu við Skólabrú, utan í gangandi vegfaranda og yfir vinstri fót hans. Vegfarandinn var á leið skáhallt yfir Lækjargötu við gangbraut með ljósastýringu. Ökumaðurinn sagði grænt ljós hafa logað á götuvitum fyrir akstursstefnu hans þegar vegfarandinn gekk utan í bifreiðina. Vegfarandinn kvaðst finna til í vinstra hné og fór hann sjálfur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.