27 Maí 2019 09:54
Í síðustu viku slösuðust átján vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. maí.
Sunnudaginn 19. maí kl. 13.39 var bifreið ekið austur Hringbraut og á umferðarljósavita við gatnamót Bræðraborgarstígs. Ökumaðurinn, sem mun hafa fengið aðsvif áður en óhappið varð, var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 20. maí kl. 18.14 varð drengur á reiðhjóli, á leið til suðurs á gangbraut yfir Melhaga við Hofsvallagötu, fyrir bifreið. Hann leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu.
Þriðjudaginn 21. maí kl. 8.29 varð fimm bifreiða aftanákeyrsla á Kringlumýrarbraut, sunnan Bústaðavegar á norðurleið. Fernt var flutt á slysadeild.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 23. maí. Kl. 2.35 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg og á ljósastaur nálægt gatnamótum Lambhagavegar. Ökumaðurinn, sem hafði sofnað undir stýri, var fluttur á slysadeild. Kl. 7.11 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á Elliðavatnsvegi, norðan hringtorgs Kaldárselsvegar. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 21.20 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til suðurs, skammt norðan Kauptúns. Báðir ökumennirnir og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 22.05 féll ökumaður bifhjóls af hjóli sínu á Breiðholtsbraut við Norðlingaholt. Hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 24. maí. Kl. 7.38 var bifreið ekið á grjót við gatnamót Borgavegar og Strandvegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.07 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi, neðan Lágafellskirkju, á norðurleið. Báðir ökumennirnir og farþegi ætluðu að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.