23 Apríl 2019 09:35
Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. apríl.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 15. apríl. Kl. 15.36 var lögreglubifreið ekið austur Hrísateig og beygt áleiðis suður Otrateig, á hlið mannlausrar lögreglubifreiðar, sem þar var. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 22.03 var bifreið ekið á tvær mannlausar bifreiðir í Heiðarási. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 19. apríl kl. 17.02 varð gangandi vegfarandi á leið norður yfir Hringbraut vestan Bræðraborgarstígs fyrir bifreið, sem var ekið austur Hringbraut. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.