22 Desember 2004 12:00
Út er komin skýrsla ríkislögreglustjóra um afbrotatölfræði fyrir árið 2003. Þar kemur fram að skráðum brotum fækkaði á síðasta ári um 10% í samanburði við árið á undan. Mestu munar um fækkun hegningarlagabrota og umferðarlagabrota en öðrum brotum fjölgaði á sama tíma.
Á síðasta ári fækkaði innbrotum um 10% og þjófnuðum um 13%, en á sama tíma fjölgaði brotum vegna fjársvika með greiðslukorti og gripdeildum. Fíkniefnabrotum fjölgaði á síðasta ári og hefur þá fjölgað nær stöðugt frá 2001. Má leiða líkum að því að aukin áhersla lögreglu og tollgæslu á þennan málaflokk skipti mestu þegar skoðað er af hverju aukningin stafar. Hlutfallslega var mesta aukning brota í dreifingu og sölu fíkniefna en einnig í vörslu eða neyslu efnanna.
Þrátt fyrir fjölgun fíkniefnabrota var minna tekið af hassi og amfetamíni en meira af marihuana og e-töflum árið 2003. Hass, sem lagt var hald á, kom aðallega frá Danmörku en amfetamín frá Hollandi.
Þeir sem kærðir voru fyrir hegningarlagabrot á síðasta ári voru flestir karlmenn á 18. og 19. aldursári. Fyrir fíkniefnabrot voru karlar 85% þeirra sem kærðir voru.
Nánari upplýsingar um skráð brot hjá lögreglu árið 2003 er að finna hér >>