1 Október 2004 12:00
Valnefnd Lögregluskóla ríkisins hefur lokið vali á nýnemum sem munu hefja nám í grunndeild skólans í janúarbyrjun 2005 en samkvæmt ákvörðun Ríkislögreglustjóra voru 20 nemendur valdir til náms að þessu sinni.
Umsækjendur um skólavist voru alls 150 en valnefnd ræddi við þá 63 umsækjendur sem uppfylltu öll almenn skilyrði þess að geta hafið nám í Lögregluskólanum og stóðust inntökupróf.
13 þessara 20 hafa starfað sem afleysingamenn í lögreglu og 2 sem fangaverðir. Menntun nýnemanna er fjölbreytileg að þessu sinni og sem dæmi má nefna að í hópnum er að finna doktor í afbrotafræði, bónda, verkfræðing, kennara, lífefnafræðing, lögfræðing, trésmið og vélstjóra.
Meðalaldur hópsins er 28,4 ár sem er hæsti meðalaldur nýnema frá árinu 1997 en þá breyttist aðgengi að Lögregluskóla ríkisins umtalsvert í kjölfar gildistöku nýrra lögreglulaga.
6 konur eru í hópi nýnemanna eða 30%.
Öllum þeim sem boðaðir voru til viðtals hjá valnefndinni hefur verið sent bréf þar sem niðurstaðan er kynnt.