16 Júlí 2004 12:00

Upplýsingar til fjölmiðla.

Vegna umræðu sem skapast hefur um rannsókn lögreglu á hvarfi Sri Rhamawati, 33 ára gamallar konu sem síðast er vitað um að morgni sunnudagsins 4. júlí sl.,  þykir rétt að upplýsa fjölmiðla um eftirfarandi:

Lögreglu var tilkynnt um hvarf hennar að kvöldi mánudagsins 5.júlí og rannsókn hófst strax að morgni þriðjudagsins 6. júlí. Fljótlega  vöknuðu grunsemdir um refsivert athæfi og að ekki væru eðlilegar skýringar á hvarfi hennar. Eftir ítarlega vettvangsrannsókn strax um morguninn,  í íbúð þar sem síðast er vitað um hana,  var barnsfaðir hennar og fyrrum sambýlismaður handtekinn.  Daginn eftir var hann leiddur fyrir dómara og gerð krafa um gæsluvarðhald sem dómari féllst á.

Frá upphafi hefur verið unnið markvisst að rannsókn málsins, rætt hefur verið við fjölda fólks og hugsanleg vitni.

Leit hefur farið fram á nokkrum stöðum og hefur lögregla notið aðstoðar björgunarsveita, m.a. sérhæfðra leitarhópa. Þyrla hefur verið notuð til að skoða ákveðin svæði.

Lögreglumenn með leitarhunda hafa farið um á völdum stöðum og loks hafa lögreglumenn skipulega farið um staði í nágrenni Reykjavíkur.

  

Um er að ræða alvarlegt mál og fyrstu dagarnir eru mjög mikilvægir fyrir frumrannsókn málsins. Lögregla verður að eiga það mat hvenær tímabært er að skýra frá einstökum atvikum í rannsókninni svo og að ákveða  hvaða upplýsingar eru veittar. Lögregla hefur átt góð samskipti við fjölmiðla sem hafa yfirleitt sýnt því skilning að hún getur ekki alltaf upplýst jafnóðum um allar sínar aðgerðir.

Svo sem komið hefur fram í fréttum fundust lífsýni við vettvangsrannsókn og eru þau nú til rannsóknar á rannsóknarstofu í Noregi. Niðurstöðu er að vænta í næstu viku.

Reykjavík, 16.júlí 2004

Hörður Jóhannesson

yfirlögregluþjónn