29 Júlí 2004 12:00
Lögreglan hefur rannsakað hvarf Sri Rhamawati, 33 ára gamallar konu sem síðast er vitað um að morgni sunnudagsins 4. júlí sl.
Lögreglu var tilkynnt um hvarf hennar að kvöldi mánudagsins 5.júlí og rannsókn hófst strax að morgni þriðjudagsins 6. júlí. Fljótlega vöknuðu grunsemdir um refsivert athæfi og að ekki væru eðlilegar skýringar á hvarfi hennar. Eftir ítarlega vettvangsrannsókn strax um morguninn, í íbúð þar sem síðast er vitað um hana, var barnsfaðir hennar og fyrrum sambýlismaður handtekinn. Daginn eftir var hann leiddur fyrir dómara og gerð krafa um gæsluvarðhald sem dómari féllst á. Það var síðan framlengt að kröfu lögreglu til 11. ágúst n.k.
Frá upphafi hefur verið unnið markvisst að rannsókn málsins, rætt hefur verið við fjölda fólks og hugsanleg vitni.
Leit hefur farið fram á nokkrum stöðum og hefur lögregla notið aðstoðar björgunarsveita, m.a. sérhæfðra leitarhópa. Þyrla hefur verið notuð til að skoða ákveðin svæði.
Lögreglumenn með leitarhunda hafa farið um á völdum stöðum og loks hafa lögreglumenn skipulega farið um staði í nágrenni Reykjavíkur.
Um er að ræða alvarlegt mál og fyrstu dagarnir voru mjög mikilvægir fyrir frumrannsókn málsins. Lögregla þarf að eiga það mat hvenær tímabært er að skýra frá einstökum atvikum í rannsókninni svo og að ákveða hvaða upplýsingar eru veittar. Lögregla hefur átt góð samskipti við fjölmiðla sem hafa yfirleitt sýnt því skilning að hún getur ekki alltaf upplýst jafnóðum um allar sínar aðgerðir.
Svo sem komið hefur fram í fréttum fundust lífsýni við vettvangsrannsókn og voru þau send til rannsóknar á rannsóknarstofu í Noregi. Niðurstöður voru þær að þau voru úr Sri Rhamawati.
Lögreglan var gagnrýnd fyrir að hafa ekki auglýst eftir ökutæki er gæti hafa tengst hvarfinu. Í ljósi niðurstöðu málsins liggur fyrir að slíkt hefði verið verra eins og staðan var. Reynslan sýnir að fjölmargar ábendingar og tilgátur berast þegar það er gert og kallar á mikinn tíma og mannafla að vinna úr þeim öllum. Í þessu tilviki var lögreglan á réttri leið frá upphafi rannsóknarinnar. Þá var lögreglan gagnrýnd fyrir að sýna málinu minni áhuga vegna þess að um útlending væri að ræða. Við rannsóknina hafði það engin áhrif á gang hennar og umfang.
Þann 27. júlí benti hinn handtekni á staðinn, sem hann sagðist hafa komið líkinu af Sri Rhamawati fyrir. Áður hafði verið leitað í tvígang á því svæði. Þann 28. júlí játaði hann fyrir lögreglu að hafa orðið Sri Rhamawati að bana með barefli í íbúð sinni að morgni sunnudagsins 4. júli. Ástæðan var bæði langvarandi og skyndileg. Hann hafi í framhaldi af því sett líkið í stóran drapplitaðan sænskan póstpoka úr nyloni, fært það í bifreið sína og ekið því á þann stað, sem hann hafði þegar bent á við sunnanvert Kjalarnes. Atvikið tengist hvorki vímuefnanotkun af hálfu þess handtekna né öðrum getgátum, sem ýjað gæti hafa verið að.
Kafarar frá lögreglunni í Reykjavík og sérsveit Ríkislögreglustjóra með góðu liðsinni kafara frá Landsbjörgu hafa skoðað hafsbotninn utan við staðinn. Þá hafa liðsmenn Landsbjargar gengið fjörur í tvígang, en án árangurs hingað til. Verið er að gera ráðstafanir til að kanna og meta rek og stefnu hafstrauma á svæðinu og munu frekari aðgerðir þar taka mið af þeirri niðurstöðu.
Rannsóknir erfiðra og flókinna mála geta tekið tíma. Lögreglan reynir jafnan að gera sitt besta í hverri rannsókn. Mikilvægt er að fjölmiðlafólk sem og almenningur sýni henni og öðrum skilning þegar þannig stendur á.
Lögreglan í Reykjavík vill þakka Landsbjörgu fyrir hennar góða liðsinni fram að þessu, sérsveit Ríkislögreglustjórans og öðrum, sem komið hafa að rannsókn þessa mál. Rannsókn þess heldur áfram.
Reykjavík 29. júlí 2004.
Ómar Smári Ármannsson
aðstoðaryfirlögregluþjónn