27 Desember 2018 09:57
Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. desember.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 16. desember. Kl. 3.41 var bifreið ekið á lögreglubifreið á Geirsgötu eftir eftirför frá Hverfisgötu. Ökumaður og farþegi lögreglubifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Ökumaður bifreiðarinnar, sem var veitt eftirför, hafði verið sviptur ökuréttindum, en hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Og kl. 13.56 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Heiðmerkurveg, og bifreið, sem var ekið suður veginn og yfir á rangan vegarhelming vegna ísingar á móts við Vífilsstaðahlíð. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 17. desember. Kl. 7.50 varð gangandi vegfarandi, á leið norður yfir Stórhöfða austan Breiðhöfða, afturundan kyrrstæðum strætisvagni, fyrir bifreið, sem var ekið vestur Stórhöfða. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 11.15 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Kringlumýrarbraut, og bifreið, sem var ekið suður brautina og beygt áleiðis austur Borgartún. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 18. desember. Kl. 10.44 varð árekstur með vespu, sem var ekið til vesturs eftir gangstétt með Suðurlandsbraut og bifreið, sem var ekið áleiðis út af bifreiðastæði við hús nr. 58. Ökumaður vespunnar, sem hafði verið tilkynnt stolin fyrir u.þ.b. mánuði síðan, var fluttur á slysadeild. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Og kl. 17.20 varð aftanákeyrsla á Grensásvegi til suðurs skammt norðan Bústaðavegar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 20. desember kl. 16.22 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Bæjarháls og beygt áleiðis suður Hraunbæ, og bifreið, sem var ekið austur Bæjarháls. Farþegi í síðarnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 21. desember. Kl. 11.49 varð gangandi vegfarandi, á leið austur yfir Kringlumýrarbraut við gatnamót Borgartúns, fyrir bifreið, sem var ekið um Kringlumýrarbraut og beygt áleiðis inn Borgartún. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 12.02 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Fjarðarhraun, og bifreið, sem var ekið austur Hjallabraut. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar leitaði sér sjálfur aðstoðar á slysadeild í framhaldinu. Og kl. 13.16 var bifreið ekið suður Höfðabakka og á ljósastaur við gatnamót Bíldshöfða. Ökumaðurinn, sem blindast hafði af sól, var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 22. desember kl. 14.13 var bifreið ekið norður Eyrarfjallsveg þar sem hún rann til í hálku og valt utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.