20 Desember 2018 15:01
Félagsvísindastofnun hefur tekið saman niðurstöður úr könnun á viðhorfum til lögreglu, þjónustu og starfa hennar.
Traust til lögreglunnar er almennt mikið, en 87% segjast vera frekar eða mjög sammála því að þeir beri traust til lögreglu og starfa hennar. Hærra hlutfall kvenna en karla bera traust til lögreglu og eins fer hlutfallið hækkandi með aldri. Meirihluti landsmanna er einnig mjög eða frekar sammála því að lögreglan sé heiðarleg (87%) og að hún vinni í þágu almennings (89%).
Mat landsmanna á trausti til lögreglu og starfa hennar.
Sýnileiki lögreglu hefur aukist frá því í fyrra, en um 30% landsmanna sjá lögreglumann eða bíl í sínu hverfi eða byggðarlagi einu sinni í viku eða oftar. Íbúar í Vestmannaeyjum eru líklegastir til að segjast sjá lögreglu oftar en einu sinni í viku í sínu byggðarlagi, en lægsta hlutfallið er meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem hafa háskólamenntun eru síður líklegir til að sjá lögregluna oft í sínu hverfi en þeir sem hafa lægra menntunarstig.
Hátt hlutfall (um 74%) landsmanna telur lögregluna aðgengilega. Nokkur munur er á hvort fólk telji lögregluna aðgengilega eftir búsetu. Hærra hlutfall íbúa á Norðurlandi eystra og í Vestmannaeyjum telur lögreglu aðgengilega, en íbúar á Austurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi vestra.
Um könnunina: Könnunin var lögð fyrir 5.200 manna lagskipt tilviljunarúrtak af landinu öllu, 2.500 svarenda voru af höfuðborgarsvæðinu og 2.700 af landsbyggðinni. Könnunin var lögð fyrir netpanel félagsvísindastofnunar og úrtak úr þjóðskrá og var svarhlutfallið 55%. Niðurstöður eru birtar í tveimur skýrslum; í annarri eru teknar saman upplýsingar fyrir allt landið og í hinni eru niðurstöður fyrir höfuðborgarsvæðið greindar sérstaklega.
Niðurstöður könnunarinnar fyrir allt landið má finna hér
Niðurstöður með nánari greiningu fyrir höfuðborgarsvæðið má finna hér