20 Apríl 2004 12:00
Þessa dagana stendur yfir glæpasýning í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Sýningin byggir á verkum Arnaldar Indriðasonar, glæpasagnahöfundar. Á sýningunni má finna yfirlit yfir ævi Arnaldar og störf. Einnig gefur að líta muni sem koma fyrir í bókunum, umfjallanir um bækurnar, ljósmyndir tengdar sögunum, sjá má verðlaun sem Arnaldur hefur hlotið og hægt er að hlusta á sögurnar.
Lögreglan í Reykjavík leggur sitt af mörkum til glæpasýningarinnar með því að stilla upp morðvettvanginum í bók Arnaldar, Mýrinni. Lögreglumaður veitir leiðsögn um morðvettvanginn og fer í gegnum starfsaðferðir tæknideildar lögreglunnar eins og um raunverulegan atburð væri að ræða. Gestum er sýnt hvernig finna má fingraför, hvernig taka skuli sýni og farið er yfir allt sem fylgir rannsókn á morðmáli.
Sýningin stendur frá 17. apríl til 9. maí og er hún opin frá kl. 11-19 virka daga og kl. 13-17 um helgar. Aðgangur að sýningunni er ókeypis.
Hópar geta skráð sig í leiðsögn í Gerðubergi með dags fyrirvara í síma 575 7700 eða með tölvupósti,
Tenglar:
www.gerduberg.is
www.edda.is