30 Október 2018 11:27
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. október.
Sunnudaginn 21. október kl. 15.22 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Njarðargötu og yfir á rangan vegarhelming norðan Sturlugötu, og bifreið, sem var ekið norður Njarðargötu. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar er grunaður um ölvunakastur.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 24. október. Kl. 15.29 féll drengur af reiðhjóli á Tjarnargötu við Skothúsveg. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.25 varð hjólreiðamaður, á leið austur gangstétt Laugavegar og áfram áleiðis yfir Kringlumýrarbraut á gangbraut, fyrir bifreið, sem var ekið suður Kringlumýrarbraut. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.03 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi gegnt Lágafellsskóla. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 25. október. Kl. 13.17 varð gangandi vegfarandi, á leið til vesturs yfir Ingólfsstræti norðan Hverfisgötu, fyrir bifreið, sem var ekið austur Hverfisgötu og beygt norður Ingólfsstræti. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 19.08 varð árekstur með bifreið sem var ekið norður Urriðaholtsstræti, og bifreið sem var ekið suður strætið og beygt norður Kauptún. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar leitaði sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Og kl. 21.16 var bifreið ekið suður Reykjavíkurveg og á afturhorn kyrrstæðrar bifreið við brún vegarins við gatnamót Nönnugötu. Farþegi í síðarnefndu bifreiðinni, sem var í þann mund að stíga út úr henni, var fluttur á slysadeild. Athygli ökumanns fyrrnefndu bifreiðarinnar var bundin við farsímann áður en óhappið varð.
Föstudaginn 26. október kl. 11.55 varð fjögurra bifreiða árekstur á Reykjanesbraut á leið til suðurs sunnan Bústaðavegar. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.