3 September 2003 12:00
Nú er lokið inntökuprófum í Lögregluskóla ríkisins en eins og fram kemur hér á heimsíðunni voru 125 umsækjendur boðaðir í inntökuprófin.
Af þeim sem voru boðaðir í inntökupróf mættu 33 þeirra ekki í prófin, 16 þeirra höfðu samband og gáfu skýringar á fjarverunni en 17 þeirra létu hins vegar ekkert frá sér heyra.
Samkvæmt þessu þreyttu 92 umsækjendur inntökupróf í Lögregluskóla ríkisins fyrir skólaárið 2004 og féllu 27 þeirra á prófunum, 22 þeirra náðu ekki þrekprófum og 5 náðu ekki íslenskuprófi. Það voru því 65 umsækjendur sem stóðust öll inntökupróf og verða, ásamt þeim umsækjendum sem hafa gilt inntökupróf frá fyrra ári, boðaðir fyrir valnefnd Lögregluskólans. Valnefndarviðtölin fara fram dagana 15. 19. september n.k. og verður öllum umsækjendum sent bréf þar að lútandi.
Áhyggju- og umhugsunarefni er hversu margir, 13,6% allra umsækjenda, mættu ekki til prófanna án þess að gefa skýringu á fjarveru sinni. Þetta er ekki síst umhugsunarefni vegna þess að viðkomandi eru að sækjast eftir að starfa sem lögreglumenn en til þeirra eru gerðar mjög strangar kröfur, m.a. um nákvæmni, stundvísi og áreiðanleika.
Með vísan til þessa hefur sú hugmynd verið rædd að umsækjandi um skólavist í Lögregluskóla ríkisins þurfi að greiða óafturkræft inntöku- eða prófgjald svo að umsókn hans verði yfirleitt tekin til skoðunar hjá valnefnd Lögregluskólans því umtalsverður kostnaður hlýst vegna umfjöllunar hverrar umsóknar.