6 Ágúst 2018 14:49
Einn gisti fangageymslu eftir nóttina vegna ölvunar og óspekta í Herjólfsdal. Fjórar líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu í gærkvöldi og nótt. Alvarlegasta árásin var tilkynnt til lögreglu um kvöldmatarleytið í gær þegar verið var að flytja mann á landspítala vegna innvortis blæðinga. Árásarþoli vildi ekki segja til árásarmannsins en eftirgrennslan lögreglu leiddi til þess að árásarþoli fannst og var færður til skýrslutöku þar sem hann viðukenndi líkamsárásina. Í öðru máli veittist maður að kærustu sinni með höggum og spörkum. Hans var leitað en fannst ekki. Hinar líkamsárásirnar voru minniháttar og eru til rannsóknar.
Tvö mál eru til rannsóknar hjá lögreglu þar sem grunur er um kynferðisbrot eftir nóttina. Málin eru í rannsókn. Kona leitaði auk þess aðstoðar lögreglu vegna kynferðisbrots sem hún varð fyrir árið 2017 á höfuðborgarsvæðinu. Konan hyggst leggja fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík.
Fíkniefnamál sem komu upp hjá lögreglunni á þessari hátíð urðu 35 talsins og er um færri mál að ræða en síðustu ár. Grunur er um sölu í tveimur af þessum málum.
Sextán umferðarlagabrot voru kærð um helgina. Sex ökumenn voru kærðir fyrir ölvun við akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Einn þeirra var ölvaður á hesti í Vestmannaeyjabæ. Önnur mál voru vegna aksturs án bílbelta, ökumaður að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar, ökutækjum lagt ólöglega og of margir farþegar fluttir en ökutæki er skráð fyrir.
Síðdegis í gær var tekin ákvörðun um að opna íþróttahúsið þar sem eitthvað af tjöldum voru farin að losna eftir að bætt hafði í vind og einnig byrjað að rigna. Um 400 manns nýttu sér þessa þjónustu Vestmannaeyjabæjar að sofa í húsinu.
Gestir þjóðhátíðar eru nú farnir að streyma aftur til síns heima. Herjólfur fór sína fyrstu ferð kl. 02:00 í nótt og mun skipið fara ellefu ferðir í dag og fram á nótt. Fyrsta ferð er svo aftur kl. 06:00 í fyrramálið. Einnig er loftbrú á Bakkaflugvöll og með flugfélaginu Erni sem fer 16 ferðir. Áætlað er að 600 til 700 manns fari með flugi í dag frá Eyjum. Ferðalangar eru hvattir til að fara varlega í umferðinni á leiðinni til síns heima og vera vissir um að vera í góðu ástandi þegar þeir hefja akstur.
Samráðsfundi með viðbragðsaðilum á þjóðhátíð 2018 var að ljúka og talið er að gestir hafi verið 14.000 til 15.000 talsins. Það var samdóma álit viðbragðsaðila að þrátt fyrir nokkurn vind á síðasta degi hafi gengið vel að aðstoða gesti og almennt hafi skipulag gengið vel.