25 Apríl 2003 12:00
Í tilefni af 200 ára afmæli hinnar íslensku einkennisklæddu lögreglu verður lögreglustöðin í Hafnarfirði opin almenningi á morgun, laugardaginn 26. apríl frá kl. 11:00 til 17:00.
Gestum verður boðið að skoða einkennisbúninga lögreglu, lögreglubíla og önnur tól og tæki sem lögreglan notar við störf sín. Einnig geta gestir fengið fingurfar á þar til gert eyðublað.
Lúlli löggubangsi verður einnig á lögreglustöðinni til skemmtunar fyrir yngstu gestina.
Léttar veitingar verða á boðstólnum fyrir gesti, bæði yngri og eldri.