25 Júní 2018 16:39
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. júní.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 17. júní. Kl. 5.48 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg og á ljósastaur norðan hringtorgs við Skarhólabraut. Ökumaðurinn, sem hafði sofnað undir stýri, er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann, ásamt farþega, var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.12 var bifreið ekið frárein Reykjanesbrautar að Vesturlandsvegi til austurs þar sem hún lenti á ljósastaur og valt. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 18. júní kl. 15.50 varð drengur á reiðhjóli á leið til norðausturs á ómerktri gangbraut í Árskógum, fyrir rauðri fólksbifreið, á leið suðaustur Árskóga. Ökumaðurinn ók hiklaust á brott af vettvangi. Drengurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 20. júní. Kl. 12.35 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Grensásveg, og bifreið, sem var ekið austur Suðurlandsbraut. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.57 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Geirsgötu og beygt áleiðis í U-beygju á gatnamótum Tryggvagötu, og bifhjóli, sem var ekið austur Geirsgötu. Ökumaður bifhjólsins, sem er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 21. júní. Kl. 1.59 var bifreið ekið austur Reykjanesbraut, á ljósastaur við Álftanesveg og vel utan vegar. Tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur. Kl. 7.17 féll bifhjólamaður á Breiðhöfða í undirgangi Vesturlandsvegar. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.41 féll drengur af vespu í Austurbergi við þrengingu á götunni nálægt biðstöð strætó. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.