28 Mars 2003 12:00
Gagnagrunnar lögreglunnar eru allir vistaðir miðlægt hjá tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins (TMD), sem hlýtur mjög góða umsögn Ríkisendurskoðunar fyrir öryggisráðstafanir. Gagnagrunnar lögreglu eru því ekki vistaðir á netþjónum sýslumannsembættanna. Hvað varðar aðgang að gagnagrunnum lögreglunnar, þá er eingöngu um sérsmíðuð forrit að ræða, þar sem hverjum og einum er úthlutaður persónubundinn aðgangur, með sérstöku notandaheiti og lykilorði. Sér reglur gilda um lykilorð að kerfunum og má nefna að aðgangskerfið er forritað þannig, að notandi fær sjálfkrafa skilaboð um að breyta um lykilorð á 90 daga fresti. Blanda þarf saman bókstöfum og táknum, krafa gerð um lágmarkslengd og ekki er hægt að nota sama lykilorðið aftur og aftur. Breyti notandi ekki lykilorði lokast hans aðgangur. Engum er úthlutaður aðgangur að landskerfum lögreglunnar fyrr en viðkomandi hefur undirritað yfirlýsingu um að hafa kynnt sér reglur sem um þau gilda og þegar starfsmenn láta af störfum er aðgangi þeirra lokað.