14 Janúar 2003 12:00
Með samþykkt Alþingis á fjárlögum fyrir árið 2003 varð sú breyting á að sýslumanninum á Hvolsvelli var falið að sjá um útprentun og útsendingar vegna allra lögreglusekta á landinu. Í samræmi við þessa ákvörðun Alþingis tók sýslumaðurinn á Hvolsvelli við þessu verkefni þann 1. janúar 2003.
Frá því nýtt sektarkerfi lögreglunnar var tekið í notkun þann 1. janúar 1998 sá ríkislögreglustjórinn um að prenta út greiðsluseðla, ítrekanir vegna sektarboða og sektargerða sem og viðvarana vegna umferðarpunkta fyrir öll lögregluembætti landsins.
Fjöldi sekta hefur farið vaxandi með hverju ári og á nýliðnu ári varð enn fjölgun, sé miðað við bráðabirgðatölur úr sektarkerfinu.
Á árinu 2002 voru samkvæmt bráðabirgðatölum sendir út 38.299 greiðsluseðlar vegna sekta fyrir umferðarlagabrot og 11.604 ítrekanir vegna greiðsluseðla sem ekki voru greiddir innan 30 daga frá dagsetningu seðilsins.
Ríkislögreglustjórinn mun eftir sem áður hafa umsjón með sektarkerfinu á landsvísu.