23 Desember 2002 12:00
Reykjavík 23 desember 2002.
Ölvun við akstur, aðgerðir lögreglu skila árangri.
Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hefur lögreglan í Reykjavík haft skipulagt eftirlit þennan desember mánuð með það að markmiði að koma í veg fyrir ölvunarakstur. Nokkur umræða hefur átt sér stað um þessar aðgerðir í fjölmiðlum. Meðal annars um það hvort lögreglan eigi að stöðva ökutæki í því mæli sem gert hefur verið í þessum mánuði til að kanna með ástand ökutækja og ökumanna. Hvort hægt sé að réttlæta slíkar aðgerðir eða hvort farið sé að skerða réttindi borgara með þeim. Lögreglan hefur svarað slíkri gagnrýni með vísan til heimilda í umferðarlögum og með vísan til þess að aðgerðir lögreglu markist af markmiðum um að fækka ölvunarakstri sérstaklega. Lögreglan fagnar jafnframt umræðu um þessi mál og aðgerðir sínar því slíkar umræður eru nauðsynlegar.
Lögreglan í Reykjavík setti sér þau markmið í upphafi þessa árs að beina kröftum sínum að alvarlegustu brotunum í umferðinni, ölvunarakstri, réttindarleysi við akstur og hraðakstri. Það hefur verið gert með margvíslegum hætti meðal annars þessum aðgerðum nú í lok ársins.
Ef við skoðum sérstaklega þessar aðgerðir í desember þá hófust þær í lok nóvember með ábendingum til borgara um refsingar við ölvunarakstri og hvatningum til borgara um að aka ekki eftir að hafa neytt áfengis auk fleiri ráðlegginga. Aðgerðirnar hafa síðan verið stigvaxandi eftir því sem á mánuðinn hefur liðið. Markmið þeirra er að valda eins litlum töfum í umferðinni og hægt er. Þessa vegna hefur t.d. atvinnubílstjórum verið vísað framhjá lokunum lögreglu svo dæmi séu tekin.
Meðfylgjandi er samantekt úr dagbók lögreglu um fjölda þeirra sem stöðvaðir hafa verið fyrir ölvunarakstur undanfarin ár á tímabilinu frá 1 til 23 desember.
Ár
1998
1999
2000
2001
2002
Fjöldi ökum
103
89
81
64
26
Af þessum tölum má sjá að þrátt fyrir mun öflugri aðgerðir lögreglu eru mun færri ökumenn sem grunaðir eru um ölvun við akstur nú en verið hefur. Lögreglan fagnar þessum niðurstöðum þótt ennþá sé of fljótt að draga of miklar ályktanir af þessari þróun. Með þessar vísbendingar í huga geta menn betur gert upp hug sinn um mat á aðgerðum án þess að lögreglan vilji ein eigna sér þennan árangur sem þarna kemur fram. Hann er fyrst og fremst sigur fyrir ökumenn sem greinilega hafa tekið vel í þessar ábendingar lögreglu og látið skynsemina ráða. Mat lögreglu er að ökumenn séu betur meðvitaðir en áður um að óskynsamlegt sé að taka þá áhættu að aka eftir neyslu áfengis og skapa þannig hættu fyrir sjálfan sig og aðra í umferðinni. Allir ökumenn þurfa að axla ábyrgð og stuðla að öryggi í umferðinni, ljóst er að það gerum við ekki með því að aka undir áhrifum áfengis.
Lögreglan í Reykjavík óskar íbúum í umdæminu gleðilegra jólahátiðar og þakkar ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða.
Fhl
Karl Steinar Valsson
aðstoðaryfirlögregluþjónn